Hvernig þokunni léttir..

Oft á tíðum hef ég leyft Impostor Syndrome stjórna mér. Þegar ég hef verið beðin um að sinna einhverju hlutverki eða taka þátt í verkefni þá hvái ég og spyr sjálfa mig „af hverju í ósköpunum er hún að biðja mig um þetta. Það væri betra fyrir hana að biðja einhvern annan. Ég get ekki sinnt þessu nógu vel og ég á pottþétt eftir að klúðra einhverju. Og ég myndi pottþétt gera eitthvað bæði mér og þeim til skammar“ og svo neita ég. Segi nei við tækifærinu.

Í félagsstarfi eins og JCI fær maður fjölmörg tækifæri og áskoranir. Þar fær maður líka góða leiðsögn og endurgjöf, og leyfi til þess að gera mistök svo lengi sem maður lærir af þeim. Þetta er gott umhverfi til þess að öðlast meira sjálfstraust og sanna fyrir sjálfum sér að maður geti víst sinnt þessum hlutverkum og tekið þátt í þessum verkefnum.

Í starfi mínu í JCI hef ég tekið mörgum áskorunum og staðið mig vel. En ég hef líka oft látið Impostor Syndrome taka stjórnina. Leyft slæmum hugsunum og óþarfa stressi trufla mig. Ýmist með því að neita að takast á við ákveðin hlutverk eða störf, eða þegar ég hef gert það, látið stressið fara með mig. Það kemur ákveðin þoka í hugann þegar þessar hugsanir taka völdin og gera hlutina mun erfiðari. Þokan gerir það að verkum að ég sé ekki eða hugsa skýrt.

Eitt af því sem ég hef oft sett fyrir mig í JCI starfinu er að taka að mér fundarstjórn. Ég hef frekar viljað taka embætti fundarritara, hann er ekki í forgrunni. Hins vegar er fundarstjórinn mikilvægasta embættið á fundinum. Hann er í forgrunni, hann stýrir fundinum, hann hefur áhrif á hvernig upplifun fólks af fundinum er. Ég hef sjaldan verið tilbúin til þess að setja mig á þennan stall og oft trúað því að ég hreinlega gæti það ekki.

Það er að breytast. Ég er að öðlast trú á sjálfri mér og hef oftar sagt já við fundarstjórnun. Ég meina – ég hef leiðbeint á námskeiðum um fundarstjórnun. Ég kann þetta alveg.

Á meðan ég er að venja mig meira við þetta hlutverk þá er lykillinn undirbúningur. Að undirbúa mig vel undir hvert skipti sem ég stýri fundi, hverjir eru í salnum, hvernig fundur er þetta, þarf ég að kunna ákveðin lög, ákveðnar venjur og siði, hver er dagskráin og hverja er ég að kynna í pontu hverju sinni o.m.fl. Góður fundarstjóri undirbýr sig auðvitað alltaf vel.

Á miðvikudag í síðustu viku stýrði ég JCI fundi þar sem varaheimsforseti JCI var heiðursgestur. Fundurinn fór fram á ensku og sem undirbúning þá fór ég yfir hvernig ég fer með öll formsatriði á ensku, og skrifaði stuttlega niður það sem ég vildi/átti að segja undir hverjum lið.

Aðalatriðið var að ég trúði á sjálfa mig meira en nokkru sinni fyrr. Og viti menn, það var engin þoka í höfðinu. Það var ekkert sem var að trufla athyglina hjá mér. Og hvað gerðist? Ég stýrði fundinum listavel.

Það kom upp atvik þar sem ég „klúðraði“ málum (þeir sem voru á staðnum vita hvað það er) en það var bara fyndið og ég lét það ekki trufla mig. Hefði ég hinsvegar leyft Impostor Syndrome að taka völdin þá hefði ég sokkið ofan í sætið og skammast mín. En ég var staðráðin í að hleypa ekki þannig hugsunum að – þetta hefði getað komið fyrir hvern sem er og mig rámar alveg í að ég hafi séð eitthvað svipað áður. En það er svo óljóst í minningunni – að það greinilega skipti ekki máli þá – þannig að þetta atvik skiptir í rauninni ekki máli eftir á.

Það er ekki alltaf auðvelt að blása á þessa þoku sem Impostor Syndrome byggir stundum upp í hausnum á manni. En með því að vera meðvitaður og ætla sér að verða betri en í gær, og leyfa þessu ekki að stjórna sér, þá verður það auðveldara eftir því sem á líður.

Ég hvet þig til þess að taka áskorunum, þú getur meira en þú heldur!

CanAndPlan

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s