Brúðkaupsdagurinn

Nýgift!
So that just happened!

Já svona tilkynntum við fyrir umheiminum að við værum búin að gifta okkur. Mig langar að segja ykkur frá þessu öllu saman – með sjónarhorni brúðarinnar.

Mjög stutta útgáfan:

Við fórum í ferðalag til LA með vinnunni hans Tryggva og ákváðum að nýta tækifærið og láta pússa okkur saman í laumi. Ráðabruggið var vandlega planað fyrirfram og við fengum hana Marie til þess að hitta okkur fyrir utan Griffith Observatory laugardaginn 11. apríl þar sem hún gaf okkur saman með Hollywood skiltið í baksýn. Við hringdum í fjölskyldur okkar og létum þær svo vita áður en hann Brandon myndaði okkur í bak og fyrir. Eftir athöfnina fórum við fínt út að borða og svo var tekið óvænt á móti okkur með kökum og kampavíni í húsinu þar sem við gistum – þau höfðu auðvitað séð þetta á fésinu og voru fljót að bregðast við. Í ágúst héldum við svo gott partý þar sem við buðum góðum gestum til þess að gleðjast með okkur.

IMG_4450

Töluvert lengri útgáfan:

Hugmyndin kviknaði í jólagleðinni

Í desember 2014 hélt OZ jólagleði en þar frétti ég að starfsmenn væru að fara til LA í vinnuferð og mökum byðist að fara með. Ég var s.s. að fara til LA með Tryggva. Geðveikt! Þá fékk ég hugdettu sem ég bar undir hann – meira í gríni en alvöru – hvort við ættum ekki bara að skreppa til Vegas og láta pússa okkur saman.

Eftir því sem á leið (kvöldið) fannst okkur þessi hugmynd frábær. Við fórum í framhaldinu að skoða hvernig þetta gengur fyrir sig þarna úti og ég fór í heilmikla rannsóknarvinnu við að finna e-n til að gefa okkur saman og hvar væri hægt að gera þetta.

Elvis var ekki alveg málið fyrir okkur.. Við pældum líka mikið í hvernig við gætum laumast frá LA til Vegas og aftur til baka án þess að vinnufélagarnir áttuðu sig á þessu. Og líka hvernig það kæmist fyrir í ferðaplönin, því Tryggvi var svo að fara beint frá LA til Cannes í Frakklandi.

Svo leið og beið. Tryggvi fór erlendis í vinnuferð í mars og endaði á því að koma ekkert heim aftur heldur fara beint til LA til þess að hjálpa til við skipulagningu viðburðarins sem OZ var að fara að halda. Ég var heima að plana og þegar ég var að skoða presta þá rakst ég á Wedding Wire þar sem hægt er að finna allt tengt brúðkaupum. Og þá prófaði ég að fletta upp LA. Auðvitað var allt morandi af viðurkenndum aðilum í LA sem gætu gefið okkur saman. Við ákváðum því að einfalda okkur hlutina töluvert og halda okkur í LA, enda er þar mjög mikið af fallegum stöðum.

IMG_4125

Undirbúningurinn

Ég lagðist yfir gagnagrunninn á WeddingWire þar sem ég leitaði að „Officiants in LA“, raðaði listanum eftir stjörnugjöf og skoðaði þá sem hafa fengið flestar umsagnir. Tók út nokkra sem ég sendi fyrirspurn á en flestir voru bókaðir. Náði svo sambandi við hana Marie hjá Let’s Get Married SoCal en hún er alveg yndisleg. Hún býður upp á nokkra mismunandi pakka en svo er þetta allt sniðið að þörfum hvers og eins. Við völdum pakka með einfaldri athöfn og ljósmyndun innifalinni (sé að það er e-ð búið að breyta þessu á síðunni hjá henni – en hey – það er stór mynd af okkur á síðunni hennar víí). Marie er ofboðslega viðkunnaleg og við áttum mjög góð samskipti í tölvupósti. Ekki mikil samskipti enda var ekki þörf á því. Við ræddum um mögulegar staðsetningar hvar athöfnin færi fram og kom hún með mjög góðar uppástungur. Mér datt í hug ákv. staður þar sem Hollywoodskiltið er mjög áberandi en umhverfið var ekkert frábært og þá stakk hún upp á Griffith Observatory. Hollywood skiltið sést þaðan, stjörnuskoðunarstöðin er virkilega falleg bygging, umhverfið sömuleiðis fallegt og hentaði trúleysingjunum okkur mjög vel að tengja okkur svolítið við vísindi með þessari staðsetningu.

Að segja ekki frá

Erfiðast fannst mér að halda kjafti. Að segja engum frá. Sérstaklega þegar samstarfsfélagar mínir tilkynntu að þau væru að fara að gifta sig um sumarið – í Vegas! Ég spurði þau laumulega að því hvað þyrfti að gera til að fá vottorð (wedding certificate) af því að ég var nú að skoða þau mál sjálf. Ég þurfti eitt sinn að bíta mig í tunguna þegar Jóna var að sýna okkur stelpunum hvernig hringa þau ætluðu að fá sér.

Jæja það kom svo að því að ég sprakk (sorrý Tryggvi – ég er að játa þetta fyrir þér hér). Ég sagði stelpunum í saumaklúbbnum frá. En ENGINN annar fékk að vita, ekki einu sinni í fjölskyldunni. Tryggvi var næstum því búinn að missa þetta út úr sér við bróður sinn út af misskilningi, þegar Gunnar fór að tala um að hann hefði verið að tala við mig um brúðkaupið okkar. Þá var Gunnar að tala „theoretically“. Í laumi keypti ég mér kjól, skó og fylgihluti og pakkaði niður ásamt öllu öðru í ferðatöskuna í apríl.

 

LA Baby!

Tryggvi var mættur löngu á undan hópnum til LA og því búinn að „worka tanið“. Bastarðurinn. Ekki það sem ég þurfti á að halda – ég næpuhvít og hann geðveikt tanaður. Jæja. Tryggvi var þó að vinna sleitulaust og það var ennþá þannig eftir að ég mætti á svæðið. Ég fékk soldið að hanga með hinum mökunum og sá Tryggva lítið sem ekkert – nema smá á kvöldin/nóttunni. Fimmtudagskvöldið fyrir athöfn var OZ með viðburðinn sinn og heljarinnar partý. Þar með endurheimti ég Tryggva minn (í smástund). Á föstudeginum (10. apríl) fórum við á sýsluskrifstofuna þar sem við gengum frá vottorðinu. Það var mjög „bandarísk“ upplifun.

certificate01

Í lobbýinu á sýsluskrifstofunni var okkur vísað í tölvu þar sem við fylltum út allar upplýsingar. Út prentaðist svo kvittun og vorum við þá send upp á 3. hæð. Þar fórum við inn langan langan gang og að lokum inn í lítið herbergi þar sem við fórum í röð. Þar voru örfáir gjaldkerar sem afgreiddu skírteinin. Við vorum ofboðslega heppin, það voru 2 pör hjá gjaldkerunum og eitt par á undan okkur í röðinni. Nokkru seinna fylltist svo herbergið af pörum sem voru þá á eftir okkur í röðinni. Það tók ágætis tíma fyrst að komast að, og svo að vera afgreidd. Farið var yfir allar upplýsingarnar sem við fylltum út í tölvunni á 1. hæð, við spurð ýmissa spurninga og svo að lokum fengum við fullt af pappírum. Nú vorum við tilbúin!

Við fórum svo í góða verslunarferð og út að borða með hópnum. Þegar hópurinn spurði hvar við hefðum verið þá sögðum við auðvitað bara frá búðarferðinni. Heill dagur í Walmart… einmitt.

Brúðkaupsdagurinn 11. apríl

Jakkafötin

Við vöknuðum snemma laugardaginn 11. apríl. Ég var tilbúin með allt mitt, búin að fara í sturtu, átti bara eftir að hafa mig til. Tryggvi hafði tekið tvenn jakkaföt með sér en á þessum tíma var hann að grennast heilan helling. Hann prófaði að fara í jakkafötin en leið ekki vel í þeim. Þá var tekið á það ráð að „skjótast“ í Macys í miðbæ LA þar sem voru brunaútsölur. Haldiði að kallinn hafi ekki bara fundið þessi svaðalega fínu Calvin Klein jakkaföt á djókverði. Og fengum meira að segja aukaafslátt þar sem við vorum að fara að gifta okkur – á eftir! Í bandaríkjunum eru allar fínni buxur mjög síðar og ófaldaðar – svo það sé hægt að stytta/sníða í rétta sídd. Tryggvi fékk nafnspjald hjá klæðskera í nágrenninu en við komum við í apóteki og keyptum pakka af öryggisnælum. Svona til öryggis. Við mættum til klæðskerans og vorum þar kl. 11. Tryggvi sauð saman smá ýkta sögu af því hvernig við hefðum lent um morguninn og töskurnar glatast og hann því fatalaus á brúðkaupsdaginn, en athöfnin væri kl. 15. Hann spurði hvort þau gætu bjargað lífi hans og stytt buxurnar fyrir kl. 14. Jú! Ekki málið! Ekki bara stytta buxurnar heldur þrengja skálmar og stytta ermar. S.s. klæðskerasníða allt heila klabbið! Og fyrir þetta greiddum við einnig djókverð.

2015-04-11 11.57.45

Fall er fararheill

Við lögðum því traust okkar á klæðskerann og fórum upp í íbúð þar sem við höfðum okkur til. Kortér í tvö vorum við svo mætt til klæðskerans, en fötin voru ekki tilbúin! Sjitt! Við biðum og biðum og alltaf var þetta alveg að koma. Korter yfir tvö vorum við loksins búin að fá fötin og Tryggvi orðinn fínn. En við vorum alla leið niðrí miðbæ LA og athöfnin var kl. 15 uppá Hollywood hæð. Og framkvæmdir í gangi og því umferðarteppa.

Úrræðagóði Tryggvi pantaði flottasta Uber bílinn í þeirri von um að við fengjum betri bílstjóra. Hann kom fljótt og við útskýrðum stöðuna. Að hann hefði 40 mínútur til þess að koma okkur í okkar eigin athöfn. Já hann var sko til í það og var ekkert smá flottur. Fann bestu leiðirnar og var fljótur á leiðinni.

Griffith Observatory er mjög vinsæll ferðamannastaður og gerðum við Tryggvi ekki alveg ráð fyrir því, en umferðin upp á hæðina var hörmuleg. Ég sendi minister Marie sms og lét vita að okkur seinkaði en við værum með bílstjóra sem keyrði okkur alla leið uppeftir. Ekkert mál frá hennar hendi. Klukkan sló þrjú. Og svo 5 mín yfir. Og 10 mín yfir. Stutta athöfnin okkar ætti að vera byrjuð. Þessi frábæri bílstjóri skrúfaði niður bílrúðuna og hrópaði á umferðarlögreglu og aðra um að færa sig, hann væri of seinn með brúðhjónin í eigin athöfn. Hann fékk sínu framgengt og keyrði okkur alla leið. Við borguðum honum og hann hélt svo sína leið en við héldum áleiðis til að hitta hana Marie og Brian ljósmyndara.

Athöfnin

Eftir að hafa dregið andann aðeins eftir stressið fundum við okkur fallegan stað með Hollywood skiltið í baksýn. Brandon tók myndir sem og litla snúllan, dóttir hennar Marie (jafngömul Bríeti).

Þarna stóðum við, horfðumst í augu og játuðumst hvort öðru. Mikið var það yndisleg og góð stund. Það var pínu skrýtið að fara með þessa játningu á ensku en mjög skemmtilegt og ég myndi ekki vilja breyta þessu á neinn hátt. Veðráttan, umhverfið, allt saman var fullkomið.

IMG_4191

Eftir athöfnina fór Marie í það að skrifa undir pappíra og önnur formlegheit, og á meðan þá hringdum við í mæður okkar. Við vildum gera það strax því það var að nálgast miðnætti heima og vildum ekki bíða til næsta dags með að segja frá. Ég hringdi í mömmu og mikið var hún hissa en glöð og ánægð. Ella svaraði ekki svo Tryggvi hringdi í Gunnar bróður sinn og bað hann um að segja móður þeirra strax frá. Við gátum ekki talað lengi því beðið var eftir okkur í myndatökur. Þessi símtöl voru kostuleg 🙂

IMG_4212

Hann Brandon Baker var að undirbúa myndatökur og við byrjuðum á því að fara að bílnum hans til þess að losa okkur við og geyma aukadótið (stóru töskuna sem ég var með undir allt dótið oþh). En viti menn, á leiðinni að bílnum hans rekumst við á bílstjórann sem keyrði okkur upp á hæðina. Tryggvi hafði gleymt sólgleraugunum sínum í bílnum og hann vildi skila þeim, auk þess sem hann hafði áhyggjur af því hvernig við ætluðum nú að komast niður af hæðinni. Það væri nefnilega alveg símasambands- og netlaust þarna uppfrá og við gætum þá ekkert náð í annan bíl. Hann bauðst til þess að hinkra eftir okkur og geyma dótið á meðan við værum í myndatöku. Okkur fannst nú alveg óþarfi að hann biði, við værum að fara í 2 klst myndatöku – við myndum svo bara redda okkur af hæðinni. Nei, hann tók það ekki í mál, það væri sko minnsta málið að bíða eftir okkur. Jæja, við slógum til, settum dótið í bílinn hans og fórum með ljósmyndaranum.

IMG_4372

Ljósmyndarinn var mjög skemmtilegur strákur að nafni Brandon Baker hjá His and Hers studio en hann fór með okkur um svæðið og tók fínar myndir. Eftir tæpa tvo tíma vorum við búin og fórum þá og hittum bílstjórann aftur. Við báðum um að hann færi með okkur að Santa Monica Pier og hann rúntaði með okkur að Beverly Hills skiltinu þar sem við tókum myndir áður en hann skilaði okkur hjá ströndinni. Þetta var yndislegur strákur, mögulega hefur hann tengt svona við okkur því hann var þá nýbúinn að biðja konunnar sinnar og voru þau að undirbúa brúðkaup fyrir næsta ár. Hann var partur af því að gera daginn ógleymanlegan.

Fagnið okkar

Við Tryggvi röltum aðeins í kringum Santa Monica Pier – í fínu fötunum og fylgdumst með sólinni síga. Við röltum svo á Sugarfish þar sem við pöntuðum borð – fórum á bar þangað til borð losnaði – fórum aftur á Sugarfish þar sem við fengum okkur besta sushi sem ég hef á ævinni bragðað. Þess má geta að þegar Tryggvi bað mín, þá vorum við á Flórída á japönskum veitingastað.

Eftir matinn fórum við aftur í húsið (the mansion) þar sem við gistum en þar tók samstarfsfólk Tryggva vel á móti okkur. Þau höfðu séð tilkynninguna okkar, skotist í búð og undirbúið óvæntar móttökur. Voru því búin að skreyta, kaupa kökur og vín og þegar við gengum inn var brúðarmarsinn spilaður á píanóið og allir óskuðu okkur til hamingju. Virkilega skemmtileg stund.

IMG_4580

Þannig var nú dagurinn – algjört ævintýri frá a-ö.

IMG_4433

Hér eru fleiri myndir frá deginum

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s