2013 / 2014

Þegar ég sat og var að skrifa stuttan fjölskylduannál fyrir jólin þá varð mér hugsað til þess hvað árið leið hratt og hvað voru stórar breytingar á árinu. Mjög stórar breytingar í vinnumálum bæði hjá mér og Tryggva sem hafa mikil og jákvæð áhrif á framtíðina. Síðustu vikur hef ég líka verið í smá naflaskoðun og komist að því að ég verð að einfalda líf mitt frekar og koma meira skipulagi á það til þess að fá það sem ég vil út úr því.

Nokkrir punktar frá 2013:

* Jafnvægi komst á ofnæmið hjá Styrmi. Eftir að hann fékk sterk ofnæmisviðbrögð við baunasúpunni á sprengidag fór hann í stærra ofnæmispróf og er þá vonandi búið að finna allt sem hann er með ofnæmi fyrir. Í dag líður Styrmi mjög vel, fær sjaldan sem aldrei roða í kinnar. Eins og hann var slæmur áður en við vorum búin að finna út úr þessu þá er hann svo góður í dag. Hann er líka alger nagli, verður nánast aldrei veikur, fær aldrei hita og á örugglega met í mætingu á leikskólanum. Hann stækkar líka svo hratt og ég held svei mér að hann hafi stækkað um helming bara í desember.. Hann hefur sérlega góðan hreyfiþroska, hopp, stökk, fótbolti eða hvaða hreyfing sem er vefst ekki fyrir honum og viðbragðshraðinn er ótrúlegur fyrir þennan aldur.

* Bríet kemur okkur sífellt á óvart og stækkar og þroskast svo hratt. Besta vinkona hennar býr á móti og þær leika sér mikið saman. Styrmir þvælist stundum aðeins fyrir þeim en fær oft að vera með, fær jafnvel stundum að fara með heim til vinkonunnar. Henni finnst afskaplega gaman að æfa sig að skrifa stafi og skrifaði jólamerkimiðana til afa, ömmu, foreldra, Styrmis og sín sjálfrar 🙂

* Tryggvi yfirgaf Netráðgjöf sem starfsmaður og eigandi og stýrir nú sölu- og markaðsmálum hjá OZ. Mér leiðist það nú ekki fyrir utan tíðar utanlandsferðir.

* Það var lítið um frí á árinu. Við skruppum norður í fermingarveislu til Ragnhildar um páskana. Fórum í hjólhýsi að Apavatni með matarklúbbnum í vor. Ættarmót með móðurfjölskyldunni að Snorrastöðum í ágúst, en ég var í ættarmótsnefndinni. Aftur fórum við í hjólhýsi og er óhætt að segja að viðhorf okkar til slíkra hýsa hefur gjörbreyst til hins betra. Fórum svo í sumarbústað í grenjandi rigningu í júlí. Ragnhildur frænka hans Tryggva kom og bjó hjá okkur í nokkrar vikur í sumar og hjálpaði okkur með börnin á meðan þau voru í sumarfríi frá leikskóla og við í vinnu. Var mikil hjálp af henni!

* Ég tók við sem landsritari JCI Íslands árið 2013. Undirbúningur hófst í október 2012 þegar nýkjörin landsstjórn kom saman og byrjaði að plana árið. Árið var tekið með trompi til að byrja með og margar hugmyndir. Ég verð þó að viðurkenna að eftir því sem leið á árið fór þreyta að hafa áhrif á mig og ég gerði ekki eins mikið og ég ætlaði mér. Ég sinnti skyldum í starfinu þó eins vel og hugsast gat og gerði allt sem til af mér var ætlast. Það var þetta litla „extra“ sem ég gerði ekki eins mikið af og ég ætlaði. Ég áttaði mig bara á því á þessu ári að fjölskyldan skiptir meira máli og setti meiri tíma í fjölskylduna heldur en félagslífið. Það tekur líka á að vera með börn á þessum aldri og gat oft verið erfitt að setjast fyrir framan tölvuna og vinna sjálfboðavinnu kl. 9 eftir að vera búin að sinna börnunum, gefa þeim kvöldmat og koma þeim í háttinn. Átti þetta sérstaklega við þegar Tryggvi var farinn að ferðast meira erlendis og ég ein heima með börnin svo dögum skipti. Óútskýrð veikindi settu líka strik í reikninginn, nánast allan október var ég með beinverki og slen en engan hita og ég þurfti mikinn svefn. Þá var lítið unnið í JCI málum. En eins og áður sagði, þá sinnti ég starfinu eins vel og ég gat og þetta varð til þess að ég mun forgangsraða hlutunum á annan hátt þetta árið. Setja fjölskylduna í fyrsta sæti og taka að mér færri og ábyrgðarminni hlutverk innan hreyfingarinnar, þannig að ég geti skilað af mér eins og best verður á kosið. Ég er að vísu komin í ritnefndina sem er eina „langtímahlutverkið“ sem ég mun taka að mér en það mun felast meira í stuttum sprettum hjá mér því ég mun annast uppsetningu blaðsins. Að öðru leyti mun ég bara taka að mér stöku leiðbeinendaverkefni eða stutt verkefni. JCI er starf sem ég tími engan veginn að sleppa hendinni alveg af því það hefur gefið mér svo mikið í gegnum tíðina og því meira sem ég gef inn í starfið því meira gefur það af sér til baka.

* Svo var það stóra breytingin hjá mér. Risastóra breytingin. Sú breyting á sér smá forsögu. Í dágóðan tíma hef ég verið að hugsa um breytingu á starfsvettvangi og mikið velt því fyrir mér hver sú breyting gæti verið. Ég var ekki lengur að finna mig sem forritari en vegna aðstæðna gat ég ekki bara hætt og gert eitthvað. En svo sá ég facebook status um afleysingu fyrir þjónustustjóra og ákvað að tími væri kominn til að taka stökkið. Kom svo í ljós að um framtíðarstarf væri að ræða þar sem núverandi þjónustustjóri væri að fara í fæðingarorlof og færi svo í starf viðskiptastjóra þegar hún kæmi aftur til baka.

Ég tók því við starfi þjónustustjóra hjá Hugsmiðjunni í apríl 2013. Mér líður mjög vel í þessu starfi og starfsfólkið er frábært.

Síðustu ár – vinna með hálfum hug – áföll – upprisa
Þeir vinnustaðir þar sem ég hef verið áður hafa reynst mér afar vel og stutt vel við bakið á mér. Ég get ekki annað sagt en að ég hef alltaf verið heppin með að vinna með æðislegu fólki og vil ég þar sérstaklega nefna síðasta stað þar sem ég vann, Mentor. Ég gekk í gegnum mjög erfitt tímabil þegar ég starfaði þar. Mánuði eftir að ég hóf störf þar (nóvember 2010) komst ég að því að ég var ólétt og tóku þau því ótrúlega vel. Síðar sama mánuð (desember 2010) kom í ljós að Tryggvi var með krabbamein og þurfti að gangast í gegnum uppskurð og mjög erfiða lyfjameðferð. Meðgangan var því afar erfið, ég var undir miklu álagi og hefur það tvímælalaust haft áhrif á vinnuafköstin. Síðustu mánuði meðgöngunnar minnkaði ég við mig vinnu og endaði svo á að taka veikindafrí síðustu vikurnar.

Ég vann því aðeins hálft árið 2011 og það með hálfum hug. Í janúar 2012 mætti ég aftur til vinnu, endurnærð og með meiri kraft en áður. En í apríl 2012 kom annað reiðarslag þegar ég missti föður minn en hann var búinn að vera að berjast við krabbamein í nokkur ár. Þetta hafði mikil áhrif á mig og skapið fór upp og niður. Eftir að móðir mín svo greindist með krabbamein í annað sinn í september og fór í sína aðra meðferð fór ég mikið að hugsa um hvað ég vildi í lífinu. Ég sótti tíma hjá sálfræðing til þess að ræða alla þessa hluti og hjálpa mér að koma skipulagi á hugsanir mínar og var mikil hjálp í því.

Ég vil hérmeð þakka öllum þeim sem ég hef starfað með áður fyrir allan þann hlýhug, hjálp og vinskap sem mér var sýndur á þessum tímum!

Það mætti segja að árið 2013 hafi verið mín upprisa. Ég hafði gott af því að skipta um umhverfi og áherslur. Þar sem ég var ekki lengur að finna mig í starfi forritara var komin í hálfgerðan vítahring – hafði ekki áhuga eða metnað lengur í að þróa mig áfram í starfi og var því farin að finnast ég vera að dragast aftur úr.

Sem þjónustustjóri er ég að nýta þekkingu og reynslu frá mörgum stöðum. Ég hef lært mikið af Tryggva í störfum gegnum árin sem sölumaður og leiðbeinandi og get tekið eitthvað þaðan. Ég hef lært mikið úr störfum mínum í JCI sem nýtast í þessu starfi. Tölvunarfræðigráðan nýtist vel þar sem Hugsmiðjan er í vefsmiðjubransanum. Þó ég hafi ekki verið í vefsmiðjubransanum áður þá skil ég hugtökin og er fljót að koma mér inn í starfið þeim megin frá. Ég skil tungumál samstarfsmanna og viðskiptavina.

Ég sé marga opna möguleika í starfi og er með margar stórar hugmyndir. Ég hlakka mikið til að takast áfram á við þetta starf og vaxa og dafna þar.

Hvað næst? Hvað mun árið 2014 bera í skauti sér?
Heilsa, skipulag og hamingja verður í brennidepli hjá mér árið 2014!
Ég held að það sé alveg ljóst að það er efni í aðra bloggfærslu – þessi er orðin töluvert lengri en ég ætlaði mér. Nú er ég að fara í þá vinnu að setja mér markmið fyrir árið og skipuleggja mig. Það ferli getur tekið nokkra daga og kemur sú bloggfærsla því örugglega bara á nýju ári 🙂

Á meðan – hafið það gott og farið vel með ykkur!

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s